supported by
/
1.
03:21
2.
3.
4.
5.
03:17
6.
03:12
7.
04:46
8.
03:27
9.
02:25
10.
02:06
11.
12.
04:13
13.

about

Ljóð Evu Hauksdóttur og tónlist eftir gímaldin

Check out this extra mix:http://soundcloud.com/gimaldin/lj-fyrir-fylgjendur-g-maldin

credits

released December 19, 2012

tags

license

all rights reserved

about

gímaldin Reykjavík, Iceland

Electro-midi-pop, Very alt-country, Folk Rock, , Anarchy metall, and so on

Started out as a new wave rocker, turned troubador, turned electro-ambient, then folk, spoken word, then country-ethno-barding, then remixer and back into rock, then blues and some dubbing. Examples of most phases on main site: www.gimaldin.com ... more

contact / help

Contact gímaldin

Streaming and
Download help

Redeem code

Track Name: Fönix
Fönix
Hvers er vert að kunna og skilja
hvað þig langar, hvert þig ber?
Ef þú þekktir eigin vilja
einfalt reyndist lífið þér.

Þegar þú sérð fuglinn fljúga
fjöllum ofar, mundu það
að alltaf mun hann aftur snúa
á sinn gamla hreiðurstað.

Fornra þjóða eiga fræði
fugl sem æðra frelsi kýs
og þótt í eldinn beint hann æði
úr öskunni hann aftur rís.

Þótt hann brenni bálið heita
birta sólar dregur hann,
eins og þá sem logans leita,
lífið sjálft þeim fugli ann.

Þér í hjarta þrálátt tístir
þessi fugl sitt frelsisstef
og veröldin að vonum þrýstir
vinarkossi á þitt nef.
Track Name: Heilræðavísa
Heilræðavísa

Ef þig svíkur andans kraftur
ekki hætta, reyndu aftur,
hugurinn ber þig hálfa leið
hitt er nám og vinna.
Þér yrði sjálfsagt gatan greið
ef gætirðu kvartað minna.
Track Name: Hrafn og dúfa
Hrafn og dúfa

Flýgur í hring yfir haug
hugar við dögun og húm
ætis að eilífri leit.
Hrafn er minn hugur
og hungrar í þig.

Hvít svífur dúfa yfir dal.
Flytur hún lofgjörð um líf,
friðsemdar fegursta mynd.
Svæfir þín sála
mitt sársaukabál.
Track Name: Kvæði handa Pardus
Kvæði handa Pardus
Þú eik með styrka grein og stofninn breiða
sem stendur keik er næðingsvindar hvína
og laufgast sumarlangt við götu mína
að lokum mun þér tímans fúi eyða.

Þú græna strá er vætu úr sverði sýgur,
og svalar daggartári grjóti hrjúfu
fótum troðið, fast á sömu þúfu
þú fölnar loks og dautt til jarðar hnígur.

Og þú sem forðast heiminn hætturíka
og hólpinn situr kyrr í eigin helsi
þú þekkir hvorki fullnægju né frelsi
í flatneskju þín ævi endar líka.

Þér finnst það sjálfsagt furðulegt og galið;
í falli sérhvers manns er líf hans falið.
Track Name: Lofgjörð
Lofgjörð (þýðing á To Be Grateful)

Eins og gleði barns sem vorsins undur nærir
allt hið smáa í veöldinni hugann hrærir,
náttúran er leikfang mitt og list,
lífið fagurt.

Sólin fyllir hjarta mitt svo flóir yfir
fögnuði og kærleika til alls sem lifir,
söngur minn er þakkargjörð til þess,
það er fagurt.

Allar góðar vættir hafa vakað yfir mér
Veröld, berðu almættinu lofgjörð mína.

Bruma tré í lundi, sjáðu blómin gróa,
börn að leik og lífið vakna um fjöll og móa.
Ó hve dýrðlegt er að vera til,
allt er fagurt.
Track Name: Pandóra
Pandóra
Í nótt, þegar vötnin vaka
og vindur í greinum hvín
og þúsund raddir þagnarinnar kvaka
hve ég þrái að opna sálar minnar skrín.

Og leysa úr viðjum angist, sorg og efa
uns ólguveður hvata minna dvín.

Og ást mína drepa úr dróma
eitt dulbúið sálarmein,
þá frelsissöngvar feigðarinnar hljóma
meðan fuglinn situr kyrr á birkigrein.

Þar hreiður sitt hann sterkum grösum greipir
sem græða þúfu, moldarbarð og stein,

við djúp minna dularsýna
um deyjandi fjallajurt.
Þó vil ég ekki opna vitund mína
því að vonin gæti líka flogið burt.
Track Name: Sálmur
Sálmur

Þótt ríki í heiminum harðræði og stríð
skal hjarta þitt friðhelgi njóta,
í kærleikans garði þú hvílist um hríð
og hversdagsins þjáningar standa til bóta.
Veröldin sýnir þér vorgrænan skóg
svo vitund þín unun þar finni
og góðvildin, blíðan og gleðinnar fró
gróa í hugarró þinni.

Í garðinum vaxa þau vináttublóm
sem von þína á hunangi næra
og aldreigi þurfa að óttast þann dóm
sem árstíðasviptingar jörðinni færa.
Þín blygðun er ástinni óþurftargrjót
sem uppræti heiðarlegt sinni,
svo breiði hún krónuna birtunni mót
og blómstri í einlægni þinni.

Með auðmýkt skal frjóvga þau fegurðarkorn
sem falla í jarðveg þíns hjarta.
Í dyggðinni vitrast þér vísdómur forn
og val þitt mun samhygð og örlæti skarta.
Þó læðist að vafi, um lostann er spurt
ég læt mér það nægja að sinni,
að nefna þá staðreynd að nautnanna jurt
nærist á ástríðu þinni.
Track Name: Næturljóð
Næturljóð
Mild,
hljóð,
ljúf,
læðist nóttin inn um gluggann.

Hlý,
mjúk,
þung,
læðist nóttin inn í hugann.

Og hún sveipar mig værð og hún fyllir mig friði
og augunum lokar svo enginn mig sér.
Og hún gefur mér tóm til að syrgja og sættast
við frumstæðar kenndir sem krauma í mér.
Því myrkrið er mjúkt og í mýkt þess er varin
sú mynd sem í birtingu brotnar sem gler.
Track Name: Morgunsól
Morgunsól
Er ég vakna við morgunsól,
verma geislar hennar augnlokin
og flæða inn í huga minn.

Birtu stafar á brumuð tré,
brjóta knappa þeirra laufin græn
og ilma af ferskri morgunbæn.

Fuglar flytja sinn dýrðarsöng,
fljúga heim í mó með grös og strá,
í lautum flétta hreiður smá.

Syndir lonta í silfurlæk
sólarkossum stirnir tæran hyl
er gárar flötinn af og til.

Angar moldin af morgundögg
mjúka körfu teygir blóm mót sól
og blærinn strýkur grund og hól.

Greiðir stúlka sitt gullna hár
geislar augna hennar verma brá
og vekja í mér nýja þrá.
Track Name: Sálumessa
Sálumessa

Af mold ertu kominn
til moldar skal hverfa þitt hold
og hvílast í ró
fjarri eilífð og upprisudómi
en af hverju grátum við dauðann
og greftrun í fold
ef sálin án líkama svífur
í tilgangsins tómi?

Og hver er þá tilgangur andans
ef hold verður mold
og tilgangur holdsins
ef tengslin við sálina rofna?

Eitt annarlegt faðmlag í myrki
á óræðum stað
svo holdlega andlegt
mun aftaka vafann um það;

af mold er mitt hjarta
og býður þér þreyttum að sofna.
Track Name: Stjörnurnar hennar Rebekku
Stjörnurnar hennar Rebekku

Nú hylja skýin himins stjörnur sýnum
og helgrá fjöllin sveipa þokuslæður.
Á þorpið herjar hríðarbylur skæður
og hrekur lítinn fugl úr garði þínum.

Í mannsins heimi finnst þó fegurð síður,
þar fyrir völd og gróða berjast bræður
og fjandinn sjálfur flestum ríkjum ræður
er fátækt, stríð og spilling húsum ríður.

Þó áttu sjálfa veröldina að vini
því verðugt er að líta jörðu nær
þá fegurð sem við fætur þína grær,

í garðinum, frá götuljóssins skini
glitra allt um kring og undir skónum
þúsund stjörnur, þér til gleði, í snjónum.
Track Name: Tvennd
Tvennd

Nautnin er kát.
Hlátrar úr lófunum streyma,
ljúfstríðir lokkarnir flæða.
Snertir mig augum.
Snertir mig eldmjúkum augum.

Sektin er þung.
Bitþöglir kaldkrepptir hnefar,
hnúturinn sígur við hnakkann.
Lítur mig augum.
Lítur mig íshörðum augum.
Track Name: Sálmur handa Soffíu
Sálmur handa Soffíu

Það gerist eitthvað gott hvern dag
svo gríptu færið, nú er lag
að setja markið hátt og hefjast handa.
Á hamingjunnar heillabraut
mun heppni falla þér í skaut
og hjálp þér hlotnast brátt í hverjum vanda.

Ef allt þér mistekst mundu þá,
af misförunum læra má
og firnamikill kraftur fylgt því getur.
Þín bíður dag hvern blessun ný
þótt búin sé sem flákaský
og er þú reynir aftur allt fer betur.

Svo gefstu ekki upp þótt gefi á
það getur ekkert stöðvað þá
sem keppa að nýrri dáð á hverjum degi.
Velgengninnar vegslóð er
vörðuð hindrunum en þér
mun auðnast ráð að ýta þeim úr vegi.